Breskir ostaframleiðendur hyggjast nú hasla sér völl á snyrtivörumarkaðnum og hafa framleitt ilmvatn sem ber keiminn af Blue Stilton mygluostinum. Eau de Stilton er framleitt af samtökum Stilton framleiðenda og vonast þeir til að fleiri fái sér stilton ef ilmvatnið verður vinsælt.
Ilmvatninu hefur verið lýst sem „jarðbundnum ávaxtakeim” og hægt verður að nálgast prufur af því hjá samtökunum á vefsíðu þeirra Stiltoncheese.com
Stilton ostur á sér langa hefð í Bretlandi og það eru ekki margir sem hafa leyfi til að framleiða ekta Stilton en osturinn tengist jólahaldi Breta og mörgum þykir hann ómissandi með púrtvínsglasi eftir jólamáltíðina.
En nú reyna framleiðendurnir að hvetja fólk til að nota ostinn við fleiri tækifæri og í matargerð og er ilmvatnið hluti af þeirri herferð.