Ríkisútvarpið hefur sent frá sér tilkynningu þar sem kemur fram, að heildarkostnaður Ríkisútvarpsins vegna Söngvakeppni Sjónvarpsins, forkeppni Eurovision, undanúrslitanna og úrslitanna í Aþenu nam tæpum 100 milljónum króna. Beinar tekjur vegna þessa námu rúmum 52 milljónum króna, þannig að kostnaður umfram beinar tekjur var tæpar 47 milljónir króna.
Fram kemur að heildarkostnaður Ríkisútvarpsins við þátttöku og útsendingar frá Aþenu var um 19 milljónir króna. Beinar tekjur Ríkisútvarpsins af þessum útsendingum námu um 18 milljónum króna. Nettókostnaður Ríkisútvarpsins vegna þátttöku og samtals 5 klukkustunda beinna útsendinga frá Aþenu var því um 1 milljón króna.
Tekið er fram, að nettókostnaður á hverja frumsýnda klukkustund hafi því verið tæplega 2,5 milljónir króna. Áhorf á þessa dagskrárliði var á bilinu 50-80%.