Franska leikkonan Audrey Tautou hefur áhyggjur af því að hún hafi kosið sér rangan starfsvettvang með leiklistinni en hún segir innhverfan persónuleika sinn rekast á við líf dægurstjörnunnar.
Tautou, sem leikur eitt aðahlutverkið í Da Vinci Lyklinum, skaust á stjörnuhimininn árið 2001 eftir að hún lék í kvikmyndinni Amelie. Hún segir að öll athyglin sem hún hefur fengið að undanförnu hafi fengið hana til að efast um hvort hún sé á réttri hillu.
„Ég er afar þrjósk þegar það kemur að því að vilja ekki lifa mínu lífi sem dægurstjarna og fara á frumsýningar og eyða tímanum mínum með öðrum leikurum,“ segir Tautou.
„Ég er ekki með það mikið sjálfsöryggi og ég vil í raun ekki afhjúpa tilfinningarnar mínar. Ég er ekki opin bók. Ég vil hafa tilfinningarnar mínar út af fyrir mig,“ segir hún og bætir við: „Ég býst við því að ég sé í röngu starfi! Ég held að þetta líf henti mér ekki.“