Í kvöld opnar norræna myndlistarsýningin Carnegie Art Award 2006 í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi, en til hennar eru valin verk norrænna myndlistarmanna af sérstakri dómnefnd sem veitir þremur þeirra verðlaun. Carnegie verðlaunin eru strangt til tekið veitt fyrir málverk, en sýningarnar hafa getið sér orð fyrir að teygja á málverkshugtakinu og má sem dæmi nefna í ár að meðal verka er hljóðmálverk og stafræn teiknimynd.
Allir listamenn, sem eru norrænir ríkisborgarar eða búsettir á Norðurlöndum, eiga kost á því að senda inn verk til þátttöku í sýningunni og keppa um verðlaunin sem veitt eru í sænskum krónum. Verðlaunin voru veitt í fyrrahaust og hlaut Eggert Pétursson 2. verðlaun.
Halldór Björn Runólfsson listfræðingur átti sæti í dómnefndinni sem valdi 21 listamann á sýninguna og þá þrjá sem hlutu verðlaun auk eins sem hlaut styrk. Halldór sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að verkin, sem send væru inn, bæru hræringum í listaheiminum keim á hverju ári. Oft væri erfitt að velja verk og þá sérstaklega með tilliti til málverksskilgreiningarinnar.
„Þetta fer mjög eftir sveiflum í listaheiminum, en við leggjum alltaf mikið upp úr því að verkin tengist málverki með einum eða öðrum hætti," segir Halldór. Sem dæmi um það megi nefna Elinu Brotherus, finnska listakonu sem átti verk á sýningunni 2005, en hún sé greinilega undir áhrifum frá málverkum impressjónista og 19. aldar stemningarmálverkum. Í raun eigi kannski ekki að kalla Carnegie sýninguna málverkasýningu, frekar sé verið að teygja hugtakið og toga. „Jafnvel þegar menn telja sig vera búna að vísa málverkinu út í horn og segja það dautt þá finnur maður að menn halda áfram að vinna út frá því og bera sig saman við það. Stór hluti listamanna sem sýna innsetningar er í rauninni að fást við málverk,“ segir Halldór.
Carnegieverðlaununum var komið á fót til að styðja „framúrskarandi listamenn á Norðurlöndum og efla norræna samtíma málaralist", eins og segir í tilkynningu vegna sýningarinnar. Carnegie Art Awards samanstendur af farandsýningu valinna listaverka, skráningu sýningarinnar í bókarformi, kvikmynd um listamennina sem taka þátt í sýningunni og loks verðlaunum til þriggja þátttakenda ásamt styrk til yngri listamanns.
Til Carnegie Art Award 2006 hafa 26 sérfræðingar í norrænni málaralist hver fyrir sig tilnefnt allt að fimm listamenn, sem að þeirra áliti skara fram úr í norrænu listalífi. Sérfræðingarnir eru að hluta fulltrúar listasafna og listaskóla, en einnig listgagnrýnendur og aðrir kunnáttumenn um list á Norðurlöndum. Þessi hópur sérfræðinga er tilnefndur til eins árs í senn. Nöfn þeirra eru meðhöndluð sem trúnaðarmál fram að útgáfu bókarinnar, þar sem birt eru nöfn þeirra sem þess óska.
Carnegie Art Award er opið listamönnum sem eru norrænir ríkisborgarar eða búsettir á Norðurlöndum. Íslenskir listamenn á sýningunni í ár eru þeir Eggert Pétursson, sem hlaut 2. verðlaun, Jón Óskar, Steingrímur Eyfjörð og Finnbogi Pétursson. Dómnefndin veitti þremur listamönnum verðlaun og einum til viðbótar styrk. Karin Mamma Andersson frá Svíþjóð hlaut fyrstu verðlaun, 1.000.000 sænskra króna, önnur verðlaun hlaut Eggert að upphæð 600.000 skr. og þriðju verðlaun, 400.000 skr, féllu í skaut Petru Lindholm frá Finnlandi. Styrkur að upphæð 100.000 Skr var veittur listamanni af yngri kynslóð, Sirous Namazi frá Svíþjóð.
Í umsögn dómnefndar segir um verk Andersson að hún hljóti fyrstu verðlaun „fyrir hugmyndaríka endurnýjun sína á frásagnarmöguleikum og andrúmslofti málverksins" og að í verkum sínum virki hún til fullnustu þá möguleika til sköpunar sérstakra myndheima sem málaralistin bjóði upp á. Sérstakt einkenni á verkum hennar þykir ítrekuð notkun á myndflötum inni í myndrýminu, þ.e. að hún vísar í aðrar myndir inni í myndum sínum og hnykkir þannig stöðugt á „sjónrænni og menningarlegri þýðingu málverksins". Um verk Eggerts segir hún að úr fjarlægð virðist þau óhlutbundin en þegar nær sé komið leysist þau upp í „ótal raunsæislega útlistuð smáatriði þar sem velþekkt blóm og annar gróður koma við sögu".
Carnegie, sem er norrænn fjárfestingarbanki, starfar nú í átta löndum og hefur um 700 starfsmenn á sínum snærum. Takmark Carnegie er að gera samtíma norræna málaralist aðgengilega öllu listaáhugafólki og á þann hátt styðja og örva listamenn á Norðurlöndum, eins og segir í tilkynningu vegna sýningarinnar. Opnun hennar er kl. 20 í kvöld.