Bandaríska kvikmyndastofnunin veitti í gær leikaranum Sean Connery viðurkenningu fyrir ævistarfið á árlegri hátíð í Los Angeles í gær.
Meðal þeirra stjarna sem fögnuðu Connery voru leikstjórarnir Steven Spielberg og George Lucas, og leikararnir Harrison Ford, Andy Garcia og Mike Myers svo einhverjir séu nefndir. Hátíðin fór fram í Kodak-leikhúsinu í Los Angeles.
Myers var í smókingjakka og skotapilsi til heiðurs leikaranum skoska. „Men vilja vera eins og hann og konur vilja hann. Hvað mig varðar þá vil ég bæði vera hann og ég vil hann,“ sagði Myers sem fór með gamanmál.
„Hann er atvinnumaður fram í fingurgóma, afar hæfileikaríkur og nálægð hans á hvíta tjaldinu er gríðarlega mikil,“ sagði Lucas um Connery í gær.
Connery þakkaði hátíðargestunum fyrir frábært kvöld. „Ég fékk mitt fyrsta tækifæri þegar ég var fimm ára gamall, og það hefur tekið mig meira en 70 ár að átta mig á því,“ sagði hann.
„Þegar ég var fimm ára þá lærði ég að lesa og ég stæði ekki hér án bóka, leikrita og handrita.“ Connery skaust á stjörnuhimininn ár sjöunda áratugnum þegar hann var fenginn til þess að leika breska ofurnjósnarann James Bond.
Hann hefur leikið í tugi kvikmynda um ævina s.s. föður Indiana Jones í þriðju kvikmyndinni um kappann, The Hunt for Red October og fyrir hlutverk sitt í The Untouchables fékk hann Óskarsverðlaunin, sem besti leikarinn í aukahlutverki.