Elín Guðjónsdóttir, ein af fjórburasystrunum sem fæddust árið 1988, mun í dag útskrifast frá Menntaskólanum Hraðbraut, en þetta er annað árið sem skólinn útskrifar stúdenta eftir tveggja ára nám. Nokkurrar eftirvæntingar gætti hjá Elínu þegar Morgunblaðið ræddi við hana, en hún hefur nú þegar lokið öllum prófum og var í óða önn að klára síðustu próflausu áfangana. Aðspurð um námið sagði hún það hafa verið nokkuð erfitt: "Það hefur verið mikið að gera, mikil vinna og strembið nám. En þetta hefur tekist, sem betur fer!" Elín sagðist ekki hafa í hyggju að setjast á skólabekk aftur í haust: "Nei, ég ætla að taka mér frí frá skóla í eitt ár og vinna og safna kröftum. Ég er ekki búin að ákveða enn hvað ég ætla að taka mér fyrir hendur í haust en það verður bara að koma í ljós."
Blaðamaður minnti Elínu á frétt frá árinu 2000 þegar fjórburarnir urðu 12 ára en þar stóð að þær hygðust allar í förðunarnám. Lék blaðamanni forvitni á að vita hvort þær stæðu enn þá við þær fyrirætlanir og gaf hlátur Elínar nokkuð góða mynd af svarinu: "Já, ég held að það sé algerlega dottið upp fyrir." Elín bætti því við að hana langi í nám að ári og hafi hún velt því fyrir sér að nema lögfræði eða hagfræði. Systur hennar eru allar í skóla, ein í Borgarholtsskóla, önnur í Verslunarskólanum og sú þriðja að koma heim eftir að hafa dvalið sem skiptinemi í Frakklandi. Hún segir þær hafa tekið þá ákvörðun að fara allar mismunandi leið eftir grunnskóla: "Við erum búnar að vera saman í tíu ár í skóla þannig að við ákváðum að fara hver sína leið í þetta skiptið," sagði Elín að lokum og rauk af stað í verslunarleiðangur þar sem velja átti útskriftarfatnaðinn.