Íslendingar eru rétt ofan við miðjan hóp þjóða í nýrri hamingjumælingu bresku stofnunarinnar New Economics Foundation þar sem m.a. er í fyrsta skipti tekið tillit til áhrifa þjóðanna á umhverfið. Hamingjusamasta þjóð heims býr á Kyrrahafseyjunni Vanuatu að mati stofnunarinnar en íbúar Zimbabwe eru hins vegar óhamingjusamasta þjóð heims.
New Economics Foundation reiknar út hamingjuvísitölu, m.a. út frá velferðarkerfi, lífslíkum og því hvernig þjóðum tekst að nýta náttúruauðlindir á sem bestan hátt. Eftir Vanuatu koma Kólumbía, Kosta Ríka, Dóminika og Panama í efstu sætunum en Swazíland, Búrúndí, Lýðveldið Kongó og Úkraína eru í neðstu sætunum fyrir ofan Zimbabwe. Ísland er í 70. sæti af 178 ríkjum sem mat er lagt á í vísitölunni.
Ef marka má hamingjuvísitöluna eru íbúar í helstu iðnríkjum heims ekki sérlega hamingjusamir. Þannig eru Ítalar í 66. sæti, Þjóðverjar í 81. sæti, Japanar í 95. sæti, Bretar í 108. sæti, Kanadamenn í 111. sæti, Frakkar í því 129., Bandaríkjamenn í 150. sæti og Rússar í 172. sæti.
Eyþjóðir eru almennt ofarlega í vísitölunni en Vanuatu er í efsta sæti eins og áður sagði. Þar búa um 200 þúsund manns. Breska blaðið The Guardian hefur eftir Marke Lowen, ritstjóra netblaðsins Vanuatu Online, að íbúar eyjarinnar séu almennt hamingjusamir vegna þess að þeir séu nægjusamir. „Þetta er ekki neyslusamfélag. Lífið hér snýst um fjölskyldu og gæsku í garð annarra. Á þessum stað hafa menn ekki of miklar áhyggjur. Það eina sem við óttumst eru jarðskjálftar og fellibyljir."
Ísland er efst Norðurlanda í hamingjuvísitölu NEF. Danir eru í 112. sæti, Norðmenn í 119. sæti, Svíar í 123. sæti og Finnar í 139. sæti.
Vefsvæði New Economics Foundation