Magni Ásgeirsson var í miklu stuði í sjónvarpsþættinum Rockstar í gærkvöldi og raunar einnig í kvöld því félagarnir í hljómsveitinni Supernova, sem stýra þáttunum, báðu hann um að endurtaka flutning sinn á laginu „Plush" sem Stone Temple Pilots gerðu frægt.
Þeir Jason Newsted, Tommy Lee og Gilby Clarke voru mjög ánægðir með frammistöðu Magna í gærkvöldi og Tommy Lee, sem til þessa hefur verið nokkuð gagnrýninn, hafði aðeins eitt orð um hana: Magnificent.
Fram kom í kvöld, að fimm þátttakendur voru um tíma í þremur neðstu sætunum í atkvæðagreiðslu áhorfenda eftir þáttinn í gærkvöldi en Magni var ekki þar á meðal. Jenny Galt, 24 ára gömul söngkona frá Kanada, var send heim að þessu sinni og eru nú 12 söngvarar eftir, sem keppa um að fá að syngja með hljómsveitinni Supernova.