Magni Ásgeirsson heldur áfram þátttöku í sjónvarpsþættinum Rock Star Supernova, en hann var ekki meðal þeirra fimm söngvara, sem fengu fæst atkvæði áhorfenda eftir þáttinn í gærkvöldi. Dómarar þáttarins, rokkararnir í hljómsveitinni Supernovu, voru raunar ósparir á hrósið eftir að Magni söng í gærkvöldi og sögðu m.a. að hann hækkaði stöðugt viðmiðin í þáttunum.
Dana Andrews, 22 ára söngkona frá Augusta í Georgíuríki í Bandaríkjunum, var send heim í lok þáttarins í kvöld. Eru þá 10 söngvarar eftir, sem keppa um það starf, að vera söngvari Supernovu.
Fjölskylda Magna kom til umræðu í þættinum í kvöld, þegar úrslitin úr atkvæðagreiðslunni voru birt, en í gær var upplýst að kona hans og sonur fengju að koma í heimsókn til Magna í Los Angeles. Tommy Lee sagðist gera sér fulla grein fyrir því hve erfitt væri að vera í burtu frá „litlu öpunum" eins og hann kallaði börnin,og spurði hvort Magni væri sáttur við það amstur sem myndi fylgja því er hann yrði valinn sem söngvari Supernovu. Magni svaraði að það yrði ekkert mál: „Flytur hljómsveitin ekki til Íslands?" spurði hann.