Popparinn Justin Timberlake ákvað að taka sér frí frá tónlistarferlinum eftir að hafa átt einlægar samræður við föður sinn, en faðirinn sagði við son sinn að hann væri að verða vinnualki. Timberlake tók sér rúmlega tveggja ára frí eftir að hann hafði tekið upp og kynnt sólóskífuna Justified, en þá hafði faðir hans hvatt hann til þess að taka sér frí áður en það yrði um seinan.
Í viðtali við fréttastofu MTV segir hann: „Ég var búin að flytja lögin mín ótrúlega oft. Þetta endar með því að maður spilar í 18 mánuði. Þú ferð á tónleikastaðinn, þú heldur tónleikana, þú ferð, klifrar upp í rútu, þú ferð á tónleikastaðinn ... Manni leið eins og í kvikmyndinni Groundhog Day. Ég var einfaldlega útbrunninn,“ sagði Timberlake
„Fríið kom til vegna samræðna sem ég átti við föður minn, því hann þekkir mig svo vel. Hann sagði við mig: „Þú ert vinnualki, og láttu mig þekkja það þar sem ég er næstum fimmtugur. Gerðu þá hluti sem þú getur gert á meðan þú ert enn á milli tvítugs og þrítugs. Njóttu lífsins. Njóttu þess sem þú hefur unnið svo hart að að ná.“ Og þetta var mjög erfitt fyrir mig,“ segir popparinn.
Timberlake hélt að hann gæti aldrei komist aftur þangað sem hann var áður. „En þegar þrír eða fjórir mánuðir höfðu liðið þá fór ég að njóta einverunnar. Mér leið eins og ég færi að sjá þá hluti sem ég hafði saknað. Svo þegar ég fór að draga andann fyrir alvöru um stund þá hugsaði ég einfaldlega með mér „Vá!““