Heimildarmynd um bandaríska kvennatríóið Dixie Chicks, sem ber heitið Dixie Chicks: Shut Up and Sing, verður dreift á heimsvísu af Weinstein fyrirtækinu og þá líklega skömmu fyrir þingkosningar í Bandaríkjunum í nóvember. Myndin fjallar um afleiðingar ummæla söngvara tríósins, Natalie Maines, í London árið 2003, en þá sagði hún þær stöllur skammast sín fyrir að vera frá sama ríki og forseti Bandaríkjanna, Texas.
Í kjölfarið fengu Dixie Chicks morðhótanir, lög þeirra voru bönnuð á fjölda útvarpsstöðva og þær urðu fyrir árásum stjórnmálamanna. Heimildarmyndin gæti því orðið vatn á myllu deomókrata, en eigandi dreifingarfyrirtækisins Weinstein, Harvey Weinstein, er yfirlýstur stuðningsmaður Demókrataflokksins og gæti þannig blandað sér í kosningaslaginn.
Ástæðan fyrir því að Weinstein dreifir myndinni er sögð sú að hann hafi boðið best. Weinstein segist stoltur af því að dreifa myndinni þar sem hún sé bæði vel gerð og frumleg og sýni einnig að Bandaríkjamönnum beri að nýta sér tjáningarfrelsið. Myndin er sögð fjalla um tjáningarfrelsi og ritskoðun meðal annars. Reuters segir frá þessu.