Icelandair hefur ákveðið að bjóða fjölskyldu Magna Ásgeirssonar, alls níu manns, til Los Angeles til að vera viðstödd úrslitakvöldið í raunveruleikaþættinum Rock Star: Supernova.
Í næstu viku ráðast úrslitin í þættinum en fjórir rokkarar eru eftir af 15 sem hófu keppni. Í gær var það söngkonan Storm Large sem kvaddi Magna og félaga hans í hljómsveitinni Supernova.
Næstkomandi þriðjudagskvöld verða tónleikar og strax að þeim loknum síðasta kosningin í Rock Star: Supernova. Á miðvikudagskvöld er svo tvöfaldur úrslitaþáttur þar sem í ljós kemur hver verður næsti söngvari Supernova.
Í næstu viku verður því önnur Magnavaka fyrir og eftir tónleikana á þriðjudagskvöld. Þau Guðrún Gunnarsdóttir og Felix Bergsson munu hita upp fyrir tónleikana í beinni útsendingu og taka á móti góðum gestum í myndveri Skjás eins. Magnavakan hefst klukkan 23:35 með raunveruleikaþættinum þar sem áhorfendur fá að fylgjast með hvað hefur gerst bak við tjöldin í þættinum vikuna á undan. Kosningavakan hefst á miðnætti og tónleikarnir sjálfir klukkan 1:00.