Magni Ásgeirsson verður í hópi þeirra fjögurra söngvara sem koma fram í lokaþætti Rock Star Supernova í næstu viku en bandaríska söngkonan Storm Large var send heim í kvöld þegar úrslit voru kynnt í atkvæðagreiðslu áhorfenda eftir þáttinn í gærkvöldi. Allir söngvararnir fimm voru um tíma í þremur neðstu sætunum en þegar upp var staðið höfðu þeir Magni og Ástralinn Toby Rand fengið flest atkvæði og voru því öruggir.
Magni söng í þættinum í kvöld með hljómsveitinni Supernova. Um var að ræða lag sem aldrei hefur verið flutt áður en verður væntanlega á plötu sveitarinnar, sem gerð verður eftir að sjónvarpsþáttunum lýkur.
Toby var klappaður upp og flutti á ný frumsamið lag, sem hann söng í þættinum í gær. Að launum fékk Toby lykla að nýjum Honda-jeppa.
Þau Storm, Dilana Robichaux og Lukas Rossi þurftu að syngja til að reyna að halda sér inni í þættinum. Storm söng lagið Wish You Were Here úr smiðju Pink Floyd af mikilli innlifun og sáust tár á hvörmum hörðustu rokkara. Dilana söng lagið I Want You To Want Me frá Cheap Trick og Lukas söng á ný lag sitt Headspin, sem hann söng einnig í gærkvöldi.
Tommy Lee, sem til þessa hefur tilkynnt hvaða þátttakandi er sendur heim ákvað að láta Jason Newsted það eftir að þessu sinni enda hefur Tommy ekki í þáttunum farið leynt með aðdáun sína á Storm.