Í gær lauk Magni upptökum á fyrstu smáskífu sem gefin verður út í nafni Supernova, en þeir keppendur sem eftir eru þurftu allir að gera það svo allt verði tilbúið í næstu viku þegar úrslitin ráðast. "Það gekk þrusuvel hjá honum og tók ekki nokkra stund, enda fagmaður á ferð," segir Eyrún. Spurð hvað Magna hafi fundist um stuðning íslensku þjóðarinnar segir Eyrún hann hafa komið honum á óvart, í raun hafi hann búist við að verða sendur heim í fyrradag og fyrir rúmri viku.
Eyrún og nánasta fjölskylda Magna munu halda vestur um haf í boði Icelandair nk. mánudag til þess að berja Magna augum í Los Angeles. Hún segir enga ástæðu til annars en að halda sig á jörðinni en viðurkennir þó að spennan sé orðin mikil. Faðir Magna, Ásgeir Arngrímsson, sauðfjárbóndi á Brekkubæ í Borgarfirði eystra, tekur undir með Eyrúnu og segist hafa tekið úrslitum síðasta þáttar með jafnaðargeði. "Við erum ekki farin að telja dollara hér, það væri nær að tala um rollur og þess konar fé í því samhengi, enda haustgöngur hafnar og byrjað að senda í sláturhús," kveður Ásgeir. Hann segir Magna uppskera eins og hann sái, en finnst frammistaða Magna ekki svo frábrugðin því sem gerist og gengur á sveitaböllum hljómsveitar hans, Á móti sól.