Ný skáldsaga um raðmorðingjann fræga Hannibal Lecter er væntanleg í bókaverslanir vestanhafs 5. desember.
Liðin eru 7 ár síðan rithöfundurinn Thomas Harris lét síðast frá sér bók um morðóða sálfræðinginn en fyrsta bókin um ódæði Hannibals, Red Dragon, kom út árið 1981, og næsta bók, Silence of the Lambs árið 1988.
Anthony Hopkins og Jodie Foster slógu í gegn í kvikmynd sem gerð var eftir seinni bókinni árið 1991. Árið 2002 var svo gerð kvikmynd um fyrri bókina.
Í nýju skáldsögunni, sem fengið hefur titilinn Hannibal Rising, segir af uppvaxtarárum Hannibals í Austur-Evrópu og rakin ævi hans frá 6 ára aldri til tvítugs, í kjölfar þess að hann missir alla fjölskyldu sína í seinni heimsstyrjöldinni.
Kvikmynd eftir sögunni er væntanleg í bíó strax í febrúar á næsta ári, en nú er það hinn ungi franski leikari Gaspart Ulliel (Un long dimanche de fiancailes/ Trúlofunin langa) sem fer með hlutverk Hannibals. Gong Li (Memoirs of a Geisha) leikur sömuleiðis í myndinni.