Breska tískuvörukeðjan Topshop hefur gert samning við fyrirsætuna Kate Moss um að hún muni hanna nýja línu fyrir keðjuna. Mun Moss meðal annars hanna töskur og gallabuxur fyrir Topshop. Haft er eftir Moss að hún sé mjög spennt fyrir verkefninu enda sé hún aðdáandi Topshop og skipti oft við keðjuna.
Kate Moss var mjög áberandi í fjölmiðlum á síðasta ári og á fyrri hluta ársins vegna myndbirtingar af henni þar sem hún tók inn kókaín. Auk þess hefur samband hennar og Peter Doherty oft ratað inn í fjölmiðla.
Orðrómur hefur verið uppi um að Moss myndi starfa með Topshop í einhvern tíma. Fékk orðrómurinn byr undir báða vængi um síðustu helgi er hún sat á fremsta bekk á tískusýningu Topshop með eiganda fyrirtækisins Philip Green.