Kvikmyndin Vier Minuten, eða Fjórar mínútur, eftir Chris Kraus hlaut Kvikmyndaverðlaun Þjóðkirkjunnar sem voru veitt í fyrsta skipti á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík 2006 í gær. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands veitti verðlaunin í lokahófi hátíðarinnar.
Kvikmyndaverðlaun kirkjunnar eru veitt vandaðri kvikmynd sem fjallar um tilvistar-, siðferðis-, eða trúarlegar spurningar. Valið var milli fjórtán kvikmynda sem allar voru sýndar í flokkinum Vitranir á hátíðinni.
Vier Minuten er önnur kvikmynd leikstjórans Chris Kraus í fullri lengd. Myndin greinir frá Jenny, ungri konu sem situr í fangelsi fyrir manndráp. Hin áttræða Traude Krüger, sem kennt hefur föngum á píanó síðan 1944, uppgötvar hæfileika Jennyar sem var undrabarn í tónlist. Samband þeirra tveggja verður sérstakt og flett er ofan af atburðum úr fortíðinni. Fjórar mínútur fjallar um viljann til að nýta hæfileika sína, segir í tilkynningu vegna þessa.
Rökstuðningur dómnefndar er þessi:
,,Örlög tveggja kvenna fléttast saman í sögu sem vekur upp spurningar um tilgang lífsins, frelsi, köllun og hæfileika. Fortíð beggja geymir leyndarmál sem hafa mótað þær og fjötrað. Konurnar tengjast í tónlist sem verður vettvangur átaka og farvegur endurlausnar. Óbeislaður sköpunarkraftur og mannleg reisn birtist með áhrifamiklum hætti í eftirminnilegu lokaatriði þar sem náðargjöf fær að njóta sín til fulls. Kraftaverk endurlausnar og sigurs gerist á fjórum mínútum."
Í dómnefnd voru Árni Svanur Daníelsson, verkefnisstjóri, sem var formaður, Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor, Gunnar J. Gunnarsson, lektor, og Oddný Sen, kvikmyndafræðingur.