Tyrkneski rithöfundurinn Orhan Pamuk hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels í ár. Fyrr á árinu féll tyrkneskur dómstóll frá ákærum á hendurOrhan Pamuk. Pamuks var ákærður var fyrir að hafa „móðgað tyrkneska þjóðarvitund" með ummælum sínum um fjöldamorð á Armenum á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar.
Pamuk er 54 ára gamall og átti sex mánaða til þriggja ára fangelsisvist yfir höfði sér hefði hann verið fundinn sekur. Ummælin umdeildu lét hann falla í viðtali við svissneska vikuritið Das Magazin á síðasta ári. Setningin, sem Pamuk var ákærður fyrir, er svohljóðandi: „Ein milljón Armena og 30.000 Kúrdar voru drepnir á þessum landsvæðum og enginn nema ég þorir að tala um það."
Tyrknesk stjórnvöld hafa löngum hafnað með öllu þeim ásökunum Armena að ein og hálf milljón þeirra hafi verið tekin af lífi í þjóðarmorði, sem framið var á árunum 1915 til 1917 þegar hið sjö hundruð ára gamla Ottoman-veldi var við að líða undir lok. Eftir fall þess við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og með gerð Lausanne-samkomulagsins árið 1923 varð Tyrkland til.
Í Lesbók Morgunblaðsins fyrr á þessu ári var fjallað um bók hans, Istanbúl: Minningar um borg , en í henni fjallar Pamuk um borgina sem hann hefur aldrei yfirgefið og leið sína til skáldskaparins. Hún er einnig forvitnilegur vitnisburður um þjóðina sem ætlaði að refsa höfundinum fyrir að segja skoðun sína.
„Tyrkneski rithöfundurinn Orhan Pamuk segir í nýrri bók, Istanbúl: Minningar um borg (Istanbul: Memoirs of a City, 2005), að óhamingja sé að þola ekki sjálfan sig og borgina sína. Eftir lestur bókarinnar er erfitt að fá það á tilfinninguna að Pamuk þoli ekki borgina sem hann hefur, að eigin sögn, aldrei yfirgefið á rúmlega fimmtíu ára langri ævi (sem er reyndar ekki alveg satt en auðvitað kórréttur skáldskapur) en minningarnar um hana eru samt sem áður í senn fullar af gleði, gremju og depurð. Skýringin er einföld að mati Pamuks, heimurinn gleymdi þessari stórkostlegu borg þegar Ottoman-veldið hrundi upp úr fyrri heimsstyrjöldinni, borgin sem hann fæddist í um miðja síðustu öld var bæði fátækari, skítugri og einangraðri en hún hafði nokkru sinni verið í tvö þúsund ára sögu sinni. Í huga Pamuks hefur Istanbúl ætíð verið borg rústa og depurðarinnar sem einkennir fyrrum heimsveldi. Hann segist allt sitt líf ýmist hafa barist við þessa depurð eða tileinkað sér hana eins og allir íbúar þessarar borgar. Þessi togstreita eða öllu heldur samræða milli manns og borgar gerir bókina að óvenjulegri sjálfsævisögu, Pamuk lýsir sjálfum sér þegar hann lýsir borginni og borginni þegar hann lýsir sjálfum sér, eins og hann segir sjálfur. "Örlög Istanbúl eru mín: Ég er bundinn þessari borg vegna þess að hún hefur gert mig að þeim manni sem ég er," að því er fram kom í Lesbók Morgunblaðsins.