Breska rokkhljómsveitin Oasis mun hljóta sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á Brit-tónlistarhátíðinni sem fram fer á næsta ári, en frá þessu greina skipuleggjendur hátíðarinnar.
Oasis, sem er frá Manchester í Englandi, skaust á stjörnuhimininn árið 1994 og urðu fljótt í framvarðarsveit Brit-poppsins svokallaða, þ.e. þegar gítarhljómsveitirnar urðu allsráðandi á breskum vinsældarlistum á nýjan leik.
Formaður samtaka breskra hljómplötuútgefenda, Peter Jamieson, segir: „Oasis setti „standardinn“ fyrir margar af þeim ungu rokksveitum sem í dag njóta velgengni á bresku vinsældarlistunum.“
Brit-hátíðin fer næst fram í Earls Court í London þann 14. febrúar nk.
Oasis, þar sem bræðurnir Noel og Liam Gallagher eru aðalsprauturnar, hefur selt yfir 40 milljónir platna um allan heim frá því að sveitin var stofnuð árið 1993.