Rúmlega áttræður Bandaríkjamaður berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í Flórída í Bandaríkjunum eftir að stingskata stökk um borð í bát hans og stakk hann í brjóstið. Árásir stingskata á menn eru mjög sjaldgæfar en nýlega lét ástralski náttúruverndarsinninn Steve Irwin lífið eftir að stingskata stakk hann í brjóstið. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Barnabarn Bandaríkjamannsins James Bertakis og vinur hennar voru um borð í bátnum með honum er atvikið varð og fluttu þau hann á sjúkrahús þar sem læknum tókst að fjarlægja hluta gaddanna úr brjósti hans. Segja þau skötuna hafa stokkið upp úr vatninu og beint á gamla manninn. Skatan drapst um borð í bátnum eftir árásina.