Faðir malavísks barns sem söngkonan Madonna hefur ættleitt hefur hvatt mannréttindasamtök, sem hafa gagnrýnt ættleiðinguna, að láta barnið í friði. Yohane Banda sagði í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að hann óttist að deilumálið sem samtökin hafa vakið athygli á muni leiða til þess að Madonna muni skila barninu.
Mannréttindasamtök í Malaví hafa sótt lagalega að Madonnu þar sem bornar eru brigður á að ættleiðinguna, en þau saka söngkonuna um að hafa beygt lögin svo hún gæti ættleitt barnið.
David Banda er nú á heimili Madonnu í London eftir að dómarinn í Malaví veitti henni tímabundinn umsjárrétt.
Samtökin í Malaví segja að Madonna hafi notað auðævi sín og stöðu til þess að fara fram hjá lögunum sem segja að útlendir fósturforeldrar verði að búa í landinu í eitt og hálft ár ætli þau að ættleiða börn.