Hljómsveitin Sigur Rós heimsótti Svasíland í Afríku fyrir skömmu. Ferðin var farin fyrir tilstilli UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í þeim tilgangi að vekja athygli á ástandinu í landinu og hvetja fólk til að taka þátt í söfnunarátaki UNICEF og gerast heimsforeldrar.
Jón Þór Birgisson, meðlimur sveitarinnar, segir fjórmenningana hafa orðið fyrir miklum áhrifum. „Það er alveg magnað að sjá þetta, að komast frá imbakassanum og inn í raunveruleikann,“ segir hann.
Í Svasílandi er hæsta hlutfall HIV- smitaðra eða tæp 40% þjóðarinnar. Georg Holm, annar meðlimur sveitarinnar, segir það hafa verið erfitt að vera 10 tíma úti í sveit með fólki sem vissi ekki hvort það fengi kvöldmat eða ekki og snúa síðan aftur í lystisemdirnar. „Þetta var svo mikið menningaráfall. Þetta var erfitt,“ segir hann.
Sjá nánar í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.