Töluvert mun vera um það að Dönum sé sagt upp vinnu eftir að þeir ganga of langt í vinnusamkvæmum á aðventunni. „Það er alveg ljóst að við fáum fyrirspurnir á hverjum mánudegi á jólahlaðborðstímabilinu,” segir Laurits Kruse Rønn, forsvarsmaður samtakanna Dansk Handel og Service í samtali við blaðið metroXpress. „Þeir hafa samband við okkur til að leita ráða um hvað þeir geti gert þegar starfsmenn þeirra hafa gengið of langt í samkvæminu og oft endar það með því að starfsmönnunum er sagt upp vinnunni.” Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Rønn segir ofbeldi vera helstu ástæðu brottvikninga en að einnig sé töluvert um mál sem tengist kynferðislegri áreitni. Hann bendir þó einnig á að mikið sé um samkvæmi á þessum árstíma og að í langflestum tilfellum hafi starfsfólk hemil á sér.
Helgi Rasmussen vinusálfræðingur telur þó að yfirmenn þurfi að leggja skýrari línur varðandi þar hvar mörkin liggi. „Við jólahlaðborðið hverfa þær leikreglur sem almennt gilda á vinnustaðnum og það er í höndum yfirmannanna að gera fólki grein fyrir því til hvers er ætlast og hvað telst óásættanlegt,” segir hann. „Þegar farið er með skólabekk í dýragarðinn gefa kennarar sér tíma til að útskýra hvernig nemendurnir eigi að haga sér þegar komið er á staðinn. Það ættu fleiri stjórnendur að gera, því þegar línurnar eru skýrar er minni hætta á misskilningi."