Poppdrottningin Madonna hefur í hyggju að ættleiða annað barn frá Malaví og þá stúlku. Madonna og eiginmaður hennar Guy Ritchie ætla að heimsækja aftur munaðarleysingjahælið Lilongwe, það sama og þau heimsóttu þegar þau sáu David Banda sem þau ákváðu að ættleiða. Mikil mótmæli fylgdu í kjölfarið þar sem þau hjón voru sögð hafa sniðgengið ættleiðingarlög í landinu.
Madonna segist ætla að hafa dóttur sína Lourdes og son sinn Rocco með sér til Malaví og leyfa þeim að velja barn með þeim hjónum. Madonna sagði í viðtali við franska tímaritið Paris Match að hún vildi víkka sjóndeildarhring barna sinna. Hæstiréttur í Malaví mun kveða upp úrskurð sinn í næstu viku í máli Madonnu og Ritchie, hvort þau megi ættleiða drenginn eða ekki.
Madonna og Ritchie fengu 18 mánaða forræði yfir David til bráðabirgða sem tók gildi 12. október síðastliðinn.