Töframaðurinn David Blaine ætlar sér að hanga í 15 metra hæð yfir Times-torgi í New York í tvo daga, fastur inni í snúði sem mun snúast um átta hringi á mínútu. Snúðurinn (e. gyroscope) er tæki sem getur haldið óbreyttri stefnu og byggist á því lögmáli að hlutur sem snýst hratt um ás vinnur gegn öllum breytingum á stefnu snúningsássins. Þá mun Blaine freista þess að losna úr snúðinum þegar tveir sólarhringar eru liðnir.
,,Ég held ég verði að halda mér vakandi allan tímann. Þetta er spennandi áskorun, hún er skemmtileg," sagði Blaine þegar hann lét vita af þessu. Hjálpræðisherinn mun fá allan ágóða sem hlýst af brellu Blaine.
Fyrr á þessu ári dvaldi Blaine í sjö daga í vatnstanki í New York. Hann fékk næringu og súrefni um leiðslur sem lágu inn í köfunargrímu sem hann hafði á sér. Hann var afar illa haldinn að þeirri þrekraun lokinni. Ananova segir frá þessu.