Eldvarnarefni notað til að leika á jólageitarbana

Jólageitin eldtrausta í Gävle.
Jólageitin eldtrausta í Gävle. AP

Bæjaryfirvöld í sænska bænum Gävle segjast nú loks hafa séð við skemmdarvörgum, sem nánast á hverju ári hafa kveikt í risastórri jólageit sem kaupmenn hafa látið búa til úr stráum og reisa í miðbænum. Hefur sérstöku eldvarnaefni, sem venjulega er notað í flugvélasmíði, verið úðað á geitina og er því vonast til að hún fái að standa óáreitt yfir jólin. Það hefur aðeins gerst 10 sinnum frá því geitin var fyrst reist árið 1966.

„Það er vonlaust að kveikja í henni núna en ef til vill er hægt að svíða á henni klaufirnar," sagði Anna Ostman, talsmaður jólageitarnefndarinnar. „Eftir 40 ára baráttu höfum við loks fundið lausnina."

Fyrirtækið, sem útvegaði eldvarnarefnið, er svo öruggt um að það virki, að Freddy Klassmo, talsmaður fyrirtækisins, sagði við Aftonbladet, að ekki væri einu sinni hægt að brenna geitina þótt napalmsprengju yrði varpað á hana.

Kaupmenn í Gävle, sem er um 150 km norður af Stokkhólmi, reistu fyrstu jólageitina í desemberbyrjun árið 1966 og þetta sænska tákn jólanna hefur síðan verið nánast árlegur skotspónn skemmdarvarga. Flestar hafa geiturnar verið brenndar, sumar einungis nokkrum klukkustundum eftir að þeim var komið upp í fyrstu vikunni í desember. Jólageitin 1976 varð fyrir bíl. Árið 1997 skemmdist jólageitin vegna flugelda. Oftast hefur þó verið kveikt í jólageitunum. Skemmdarvargarnir hafa sjaldnast náðst. Fullyrt var að í fyrra hefðu jólasveinn og piparkökukall kveikt í geitinni en brennuvargarnir náðust ekki. Árið 2001 kveikti 51 árs gamall Bandaríkjamaður í geitinni á Þorláksmessu. Hann náðist og sat 18 daga í fangelsi.

Ostman segir, að í þetta skipti sé ekki einu sinni talin þörf á því að hafa sérstaka vaktmenn við geitina. „Við getum sofið vel í nótt - og geitin einnig."

Þeir sem vilja fylgjast með geitinni í nótt geta fylgst með henni á netinu en sérstakri vefmyndavél hefur verið komið fyrir í miðbænum.

Geit er aldagamalt tákn jólanna í Svíþjóð, en hún færði gjafir samkvæmt þjóðtrú. Margir Svíar setja litla strágeit undir jólatréð eða hengja á greinarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar