Fullt hús var á tvennum tónleikum Evrópsku dívanna í Laugadalshöllinni nýju síðdegis og í kvöld. Gestasöngvarar voru breska söngkonan Petula Clark og Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenór. Umgjörð tónleikanna var glæsileg, strengjasveit skipuð 50 meðlimum Sinfóníuhljómsveitar Íslands lék og Drengjakór Reykjavíkur og Karlakórinn Fóstbræður sungu.
Evrópsku dívurnar eru frá Færeyjum, Grikklandi, Írlandi, Íslandi og Noregi. Söng hver um sig jólalag frá sínu landi og íslenska dívan Ragnhildur Gísladóttir söng „Það á að gefa börnum brauð“.
Uppselt var á tónleikana klukkan níu í kvöld og var bætt við aukatónleikum klukkan sex, og var þar einnig fullt hús.