Hin alræmda rassskora iðnaðarmanna fær harða gagnrýni í breskri könnun á því hvað fer mest í taugarnar á fólki í fari iðnaðarmanna. Efst í huga fólks var rassskoran sem oft vill gægjast upp fyrir buxnastrenginn þegar menn þurfa að beygja sig niður við störf sín eða „píparaskora“ eins og hún er stundum kölluð.
Það var sorphirðufyrirtækið Any Junk? sem spurði 500 manns að þessu og bað fólk um að skrifa niður það sem helst færi í taugarnar á því. Annað sem þótti pirrandi í fari iðnaðarmanna í Bretlandi var að þeir væru í sífellu að biðja viðskiptavini sína að gefa sér te, þeir væru skítugir og þökkuðu ekki fyrir sig eða bæðu fallega.
Fyrirtækið ætlar að nýta sér þessar upplýsingar til að siða starfsmenn sína til. Þeir hafa nú fengið belti frá fyrirtækinu og ættu því að geta haldið skorunni í nærhaldinu. Sky segir frá þessu.