Tenórinn Roberto Alagna ætlar að fara í mál við við Scala-óperuna ef óperuhúsið leyfir honum ekki að snúa aftur á sviðið í kjölfar skyndilegs brotthvarfs hans í miðri sýningu..
Franski-ítalski óperusöngvarinn, sem söng aðalhlutverkið í Aidu eftir Verdi, gekk af sviðinu eftir að áheyrendur höfðu baulað á hann.
Varaleikari hans þurfti því að taka við hlutverkinu í skyndingu, svo miklum reyndar að hann var enn í gallabuxunum þegar hann hóf að syngja.
Framkvæmdastjórn óperuhússins segir að Alagna muni ekki taka þátt í þeim uppfærslum sem eftir eru á verkinu þar sem hann hafi tæknilega brotið á samningi sínum við Scala-óperuna.
„Hegðun hans hefur orðið til þess að gjá hefur myndast á milli listamannsins og áheyrenda, og það er enginn möguleiki á því að bæta fyrir það,“ sagði talsmaður óperuhússins, Carlo Maria Cella.
„Hann fór ekki út af því hann var veikur; hann fór af fúsum og frjálsum vilja.“
Alagna hafði samband við óperufélagið til þess að segja þeim að hann væri reiðubúinn að stíga aftur á sviðið. Svarið var hinsvegar á þá leið að samningurinn hans hefði verið felldur úr gildi.
Hann sakar Scala-óperuna um að koma fram við hann líkt og hann væri einskonar „skrímsli“ og í framhaldinu hafði hann samband við lögmenn sína varðandi væntanlega málsókn.
„Ég fór þangað til þess að syngja, til þess að veita áheyrendum gleði og ánægju,“ sagði hann í samtali við Reuters-fréttastofuna.
„En hvað átti ég eiginlega að gera þegar sumir hófu að baula á mig? Hvað ef þeir hefðu kastað steinum í mig eða einhver brjálæðingur hefði ráðist á mig? Scala-óperan ætti að hafa verndað mig, og það hefði átt að fresta sýningunni.“