Stephen Tame, strangkristinn Breti frá Suffolk, fékk þrjár milljónir punda í skaðabætur vegna vinnuslyss sem olli því að kynhvöt hans jókst og eyðilagði á endanum hjónaband hans, að eigin sögn. Tame sagðist ekki hafa ráðið við sig og snúið sér til vændiskvenna og að klámefni. Tame fékk höfuðáverka við fall úr krana sem mun hafa breytt heilastarfsemi hans.
Sagan af Tame minnir að nokkru á söguna af Jeckyll lækni og herra Hyde. Tame þótti áður siðprúður og var nýgiftur þegar slysið varð, en þá breyttist hann á þá vegu að hann gat ekki haft hemil á sér og sínum leyndustu hvötum. Hann hélt tvisvar sinnum framhjá eiginkonu sinni sem skildi síðar við hann.
Tame lá í dauðadái í tvo mánuði eftir slysið, en hann var við byggingarvinnu þegar það varð, í janúar 2002. Læknar telja það kraftaverki næst að hann hafi lifað slysið af.
Hæstiréttur í Lundúnum dæmdi Tame bæturnar og sagði dómarinn að slysið hefði gert út um hjónaband hans. Vinnuveitandi hans fyrrverandi, Professional Cycle Marketing, hélt því fram að meiðsl Tame hefðu ekki verið eins mikil og lögmenn hans vildu meina. Reuters segir frá þessu.