Leikarar þáttaraðarinnar Grey´s Anatomy, eða Líffærafræði Grey, eru skemmtikraftar eða skemmtiefni ársins að mati tímaritsins Entertainment Weekly. Ástæðan er sögð menningarleg áhrif leikaraliðsins. Tímaritið velur undir lok hvers árs það besta í skemmtanageiranum í Bandaríkjunum það árið.
Tímaritið segir leikarana hafa haft menningarleg áhrif á fleiri en áhorfendur Grey´s Anatomy, en þeir eru víst 20 milljónir í viku hverri. Í þáttaröðinni segir af ungum læknum sem eiga í margs konar vandræðum í vinnu, einkalífi og ástarmálum .
Þessar læknaþrautir eru vinsælt umræðuefni á bandarískum vinnustöðum og skólastofnunum. Entertainment Weekly segir þættina ekki bara þætti heldur fyrirbæri. Þegar lokaþáttur seinustu raðar hafi verið sýndur hafi New York-búar til að mynda haldið sig heima og hægt að fá borð á bestu veitingastöðum borgarinnar.
Af öðrum vinsælu í skemmtanalífinu má nefna YouTube vefsíðuna. Þar má finna myndbönd frá hinum og þessum, frægum eða óþekktum. YouTube komst nærri titlinum skemmtiefni ársins, þar sem síðan þykir hafa áhrif út fyrir stafræn landamæri sín. Reuters segir frá því.