Íslenskir listamenn opna sýningu í listamiðstöðinni í listaháskólanum í Xiamen á morgun. The Little Traveling Academy nefnist hópur íslenskra listamanna sem sýna mun afrakstur fjögurra mánaða dvalar sinnar í Kína. Hjónin og listamennirnir Áslaug Thorlacius og Finnur Arnar hafa ásamt börnum sínum fjórum, þeim Salvöru, Kristjáni, Hallgerði og Helgu starfað saman að listsköpun í vinnustofu við höfnina í Xiamen.
Fjölskyldan hefur lagt stund á hefðbundna skólun barnanna samhliða listsköpun af ýmsu tagi. Þau bjuggu til leikföng og verkfæri, teiknuðu, máluðu, smíðuðu, skáru út, límdu, hnýttu, saumuðu og prjónuðu. Einnig rannsökuðu þau umhverfi sitt og skrásettu með ýmsum hætti og nefnist sýningin einu nafni „heimildainnsetning í rými" og þar verða einnig sýndir gjörningar. Sýningunni lýkur 14. janúar.