Fyrsta skáldsaga Eiríks Guðmundssonar, Undir himninum, kom út hjá Bjarti í byrjun nóvember og hlaut þá góðar viðtökur gagnrýnenda. Í fréttatilkynningu frá Bjarti segir hins vegar að nú hafi verið ákveðið að taka bókina af markaði.
Í tilkynningunni segir meðal annars:
„Það er yfirlýst markmið Bjarts að fegra mannlífið með góðum skáldverkum. En nú ber nýtt við. Í fyrradag var lesinn dómur um bókina í útvarpsþættinum Víðsjá. Fyrrum vígi höfundarins, Eiríks Guðmundssonar, sem löngum var umsjónarmaður þáttarins. Var talið nánast fullvíst að Eiríkur myndi slá í gegn á sínum fornu heimaslóðum ... en þá, öllum að óvörum, kom hik á ritdómarann.
Auður Aðalsteinsdóttir sagði í Víðsjá að henni þætti sagan frústrerandi, þótt hún væri fyndin og margþætt. Hún sættist við bókina þegar hún fór að hlæja upphátt, en gramdist aftur þegar hún týndist í heimspekilegum vangaveltum. Í stuttu máli var hún oft bálreið út í bókina, sem hún sagði að væri vettvangur endalausra leikja."
Ennfremur segir í tilkynningunni:
„Það er alls ekki ætlun forlagsins að rugla fólk í ríminu, hvað þá vekja gremju. Því hefur verið ákveðið eftir nokkra yfirlegu hjá forlaginu að taka bók Eiríks Guðmundssonar, Undir himninum, af markaði, svo ekki hljótist meiri skaði af bókinni."