Bandaríska NORAD-loftvarnarkerfið var notað í gærkvöldi til að fylgjast með ferðum jólasveinsins þar sem hann þeyttist heimshorna á milli til að færa börnum gjafir. Hefur þetta verið gert í rúma hálfa öld á aðfangadagskvöld. NORAD tilkynnti í gærkvöldi, að sést hefði til jólasveinsins á hreindýrasleða sínum nálægt norðurpólnum og síðan yfir Evrópu, þar á meðal yfir Vík í Mýrdal þegar klukkan var 15 mínútur yfir miðnætti í nótt.
Að því er kemur fram á heimasíðu NORAD, sást til jólasveinsins klukkan 23 í gærkvöldi yfir París í Frakklandi, laust fyrir miðnætti var hann yfir Englandi, 10 mínútur yfir miðnætti var hann yfir Shannon á Írlandi, fimm mínútum síðar var sveinki yfir Vík og laust fyrir klukkan 1 sást til jólasveinsins yfir Ammassalik á Grænlandi.
Samkvæmt óstaðfestum þjóðsögum innan NORAD hófst þessi hefð árið 1955 þegar fyrirtækið Sears-Roebuck birti auglýsingu í blaðinu The Gazette í Colorado Springs þar sem börnum var sagt að þau gætu hringt í tiltekið símanúmer og talað við jólasveininn. En númerið sem birt var reyndist rangt og var raunar hjá stofnun sem var fyrirrennari NORAD. Þar varð Harry nokkur Shoup, höfuðsmaður, fyrir svörum og sagði barninu sem hringdi að hann skyldi kanna hvort nokkur merki sæjust um jólasveininn á ratsjánum.
Árið 1958 tók NORAD að sér þetta verkefni og þar eru margir við símsvörun á aðfangadagskvöld til að svara börnum frá öllum heimshornum, sem vilja vita hvernig gjafadreifingu jólasveinsins líði.
Á heimasíðu NORAD segir að notuð séu öflugt ratsjárkerfi auk gervihnatta til að fylgjast með ferðum jólasveinsins. Einnig eru nokkrar jólasveinamyndavélar á völdum stöðum.