Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi, fjórum dögum eftir að hann fór í aðgerð eftir að hann fótbrotnaði er hann var á skíðum.
Schwarzenegger, sem er 59 ára, býst við því að ganga á hækjum þegar hann mun sverja embættiseið næstkomandi föstudag, en þá hefst annað kjörtímabil hans sem ríkisstjóri Kaliforníu. Schwarzenegger var útskrifaður af sjúkrahúsinu um klukkan 17 að staðartíma í gær og þaðan fór hann á heimili sitt í Los Angeles að sögn talskonu hans.
Í yfirlýsingu sem skrifstofa ríkisstjórans sendi í gærkvöldi kemur fram að Schwarzenegger væri ekki á þeirri skoðun að meiðslin hafi dregið úr bjartsýni hans gagnvart árinu sem senn gengur í garð.
Dagskráin hjá Schwarzenegger er þétt næstu daga. Tveggja daga innsetningarathöfn mun hefjast á fimmtudaginn með tilheyrandi veisluhöldum. Í kjölfarið mun hann flytja ávarp til íbúa Kaliforníu á laugardaginn og daginn eftir mun hann kynna fjárlagaáætlun sína fyrir árið.
Schwarzenegger braut bein í hægra læri í síðustu viku er hann var á skíðum í Sun Valley í Idaho. Aðgerðin tók um einn og hálfan tíma og notuðu læknar m.a. skrúfur til þess að festa beinflísarnar sem brotnuðu við lærbeinið.