David Beckham hætti við að kaupa minkapels í Harrods í London fyrir skömmu vegna þess að hann óttaðist að kalla yfir sig reiði dýraverndarsinna. Pelsinn var frá Christian Dior og kostaði lítil tólf þúsund pund (1,7 milljónir króna).
Þegar Beckham hafði klæðst herlegheitunum „gat hann ekki hætt að horfa á sjálfan sig í speglinum“, hefur Daily Express eftir heimildamanni.
„Hann var hrifinn af rauða litnum en sagðist ekki geta keypt hann vegna þess að dýraverndarherdeildin gæti brugðist ókvæða við,“ sagði heimildamaður blaðsins. „Hann grínaðist líka með það að félagar sínir hjá Real Madrid bæru ekkert skynbragð á tísku og myndu stríða sér.“
Viktoría, eiginkona Beckhams, komst naumlega hjá því að verða skotspónn dýraverndarsamtakanna PETA eftir að meðlimir þeirra héldu að gervipelsinn hennar væri ekta.
Viktoría lét sauma á sig allmargar gerviefnaeftirlíkingar af pelsum sem hún sá á tískusýningu Robertos Cavallis í hittifyrra.