Næstkomandi þriðjudag geta Bretar í fyrsta sinn keypt sér frímerki með mynd af tónlistarmönnum á. Það þarf engan að undra að Bítlarnir eru þess heiðurs aðnjótandi að verða fyrsta hljómsveitin sem fær mynd af sér á bresk frímerki en að sögn talsmanns hjá Royal Mail er þetta gert til að votta Bítlunum virðingu fyrir þeirra glæsilega framlag til tónlistar.
Frímerkin verða sex talsins og skarta öll mynd af umslagi einhverrar af metsöluplötum hljómsveitarinnar en það eru plöturnar Sgt Pepper's Lonely Hearts Club Band, Abbey Road, Revolver, Help!, Let It Be og With The Beatles.
Eins og venja er verður þó mynd af Elísabetu Englandsdrottningu ekki langt undan en skuggamynd af henni prýðir eitthvert horna hvers frímerkis.