Bowie náði fyrst augum og eyrum almennings haustið 1969 þegar lagið Space Oddity var á meðal fimm mest seldu smáskífulaga í Bretlandi.
Eftir þriggja ára tilraunatímabil kom hann aftur fram á sjónarsviðið með hliðarsjálfið Ziggy Stardust árið 1972, og plötuna The Rise and Fall of Ziggy Stardust í farteskinu. Lagið Starman sló í gegn og Bowie var orðinn stórstjarna í heimalandinu.
Það var svo árið 1975 sem Bowie náði fyrst teljandi vinsældum í Bandaríkjunum, en þar komst lagið Fame af plötunni Young Americans í efsta sæti vinsældarlista. Með þeirri plötu skipti hann hins vegar um gír frá því sem hann hafði áður gert, og urðu margir eldri aðdáenda hans í Bretlandi honum fráhverfir. Bowie lét þó ekki deigan síga og gaf út plötuna Low árið 1977, en það var fyrsta plata Bowies af þremur sem hinn goðsagnakenndi upptökustjóri Brian Eno vann – hinar voru Heroes og Lodger. Plöturnar voru oft nefndar Berlínarþrennan enda teknar upp þar í borg. Allar náðu þær miklum vinsældum í Bretlandi og titillagið af Heroes er af mörgum talið tímamótaverk í popp- og rokksögunni.
Eftir misjafnt gengi undir lok áttunda áratugarins náði Bowie fyrsta sæti breska smáskífulistans árið 1980 með laginu Ashes to ashes, auk þess sem platan Scary Monsters (and Super Creeps) náði fyrsta sæti plötulistans þar í landi. Árið 1981 slóst hann í lið með hljómsveitinni Queen og saman tóku þeir félagar upp lagið Under pressure sem einnig komst á topp breska smáskífulistans. Árið 1983 kom svo Let's Dance út, en þrjú lög af þeirri plötu náðu strax gríðarlegum vinsældum; titillagið, China Girl og Modern Love.
Síðan þá hefur Bowie gefið út nokkrar plötur sem átt hafa misjöfnu gengi að fagna, en engin þeirra hefur náð teljandi vinsældum þótt gagnrýnendur hafi oft verið ánægðir. Bowie hefur hins vegar snúið sér að ýmsu öðru en tónlist, svo sem leik á sviði og í kvikmyndum, leikstjórn og myndlist.
Í könnun sem breska ríkisútvarpið BBC framkvæmdi árið 2002 hafnaði Bowie í 29. sæti yfir "mestu Breta allra tíma". Bowie hefur selt um 136 milljónir platna um allan heim og er á meðal tíu söluhæstu bresku tónlistarmanna sögunnar. David Bowie hefur markað djúp spor í sögu popp- og rokktónlistar – dýpri spor en flestir aðrir núlifandi tónlistarmenn.