Með þykkan skráp

Magni Ásgeirsson á balli.
Magni Ásgeirsson á balli. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.is
„Ég er að fara í þetta blessaða tónleikaferðalag sem ég var búinn að lofa mér í fyrir hálfu ári síðan," segir Magni Ásgeirsson sem býr sig nú undir að hita upp á 28 tónleikum hljómsveitarinnar Supernova víðs vegar um Bandaríkin og í Kanada. Magni kemur fram ásamt félögum sínum úr Rock Star þáttunum, þeim Toby Rand og Dilönu Robichaux, en það er hljómsveit Tobys, Juke Kartel, sem leikur undir. Þá kemur hljómsveit gítarleikarans Dave Navarro, The Panic Channel, einnig fram á tónleikunum.

Fyrstu tónleikarnir eru á þriðjudaginn eftir viku, en Magni fer út um helgina. "Þetta verða einhverjar sex til sjö vikur, þetta er ótrúlega þétt dagskrá," segir hann. „Við byrjum í Flórída, sem mér lýst mjög vel á, svo held ég að við færum okkur upp austurströndina, verðum með einhverja þrenna tónleika í Kanada, og færum okkur svo niður vesturströndina."

Sótti um stöðu gítarleikara

Magni segist hafa mikinn áhuga á að starfa áfram með sveitinni, og hefur því gert sérstakar ráðstafanir til þess að það gangi eftir. „Ég er búinn að sækja um sem gítarleikari í húsbandinu. Hann Jimmy [Jim McGorman] er hættur, hann er farinn að spila með Avril Lavigne," segir hann. „Þessi hljómsveit spilar náttúrulega svo lítið, og það er ekki víst að það verði önnur þáttaröð. Þannig að ég sótti bara um upp á grínið, bara til að sjá hvað þeir myndu segja," segir Magni. „Ef þeir spila með Rock Star liðinu þá syng ég bara, það er búið að tala um að gera eitthvað meira eins og við gerðum hérna heima. Síðan eru þeir að spila með mönnum eins og Paul Stanley úr Kiss og þá syngur hann náttúrulega og maður sér bara um bakraddir á meðan," segir Magni sem vonar að hann fái formlega inngöngu í sveitina, en meðlimir hennar hafa allir tekið vel í þá hugmynd.

„Þetta eru auðvitað bestu hljóðfæraleikarar sem ég hef unnið með þannig að þótt ég geti bara fengið að standa við hliðina á þeim og spila þá er mér alveg sama," segir Magni, sem er ekkert á þeim buxunum að slá í gegn í Bandaríkjunum. „Þetta er miklu meira bara upp á heiðurinn. Ég er ekki að fara til Bandaríkjanna til þess að meika það," segir Magni sem snýr aftur í mars og einbeitir sér þá að sinni gömlu sveit, Á móti sól. „Ég held að Á móti sól sé bara farin að velta því fyrir sér hvar hún ætli að spila um páskana. Það er náttúrulega hljómsveitin mín, hún er númer eitt."

Blæs á kjaftasögur

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hættu þau Magni og Eyrún Huld Haraldsdóttir saman fyrir stuttu, en fjölmargar gróusögur um ástæður skilnaðarins hafa verið á kreiki. Magni blæs á allt slíkt.

„Svo framarlega sem mín nánasta fjölskylda og vinir vita sannleikann þá er mér eiginlega alveg skítsama hvað einhverjar einmana húsmæður úti í bæ eru að slúðra um. Fyrsta reglan ef maður ætlar að verða eitthvað þekktur eða frægur, eða hvað sem maður vill kalla það, er að vita að það þýðir ekkert að berjast við kjaftasögur, það gerir hlutina bara helmingi verri," segir hann. „Þegar þetta er farið að særa þá sem eru í kringum mann þá fer þetta að verða dálítið pirrandi. Sjálfur er ég með þykkan skráp þannig að mér er slétt sama hvað er sagt um mig," segir Magni, og tekur dæmi af nýlegu atviki. „Ég stóð og spjallaði við konu frænda míns á Sólon í 20 mínútur, hún er eins og litla systir mín. Sökum hávaða þurfti ég að tala alveg upp í eyrað á henni. Á Barnalandi daginn eftir stóð að ég hefði verið með einhverri stelpu á Sólon. Þetta er svona einfalt," segir Magni að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir