Knattspyrnumaðurinn Peter Schmeichel, sem um árabil var markvörður knattspyrnuliðsins Manchester United, tekur við nýju starfi á vordögum, en hann mun stjórna spurningaþætti á dönsku sjónvarpsstöðinni TV3. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende. Schmeichel segist hlakka til að takast á við önnur verkefni en íþróttir.
Það er þátturinn „1 mod 100” sem Schmeichel hefur tekið að sér að sjá um, en hann mun vera hollensk uppfinning sem nýtur talsverðra vinsælda og er sýndur víða í Evrópu, m.a. í Englandi, en þar býr Schmeichel nú ásamt fjölskyldu sinni.
Schmeichel er þó ekki alls ókunnur því að koma fram í sjónvarpi því hann hefur stjórnað þáttum um meistaradeild Evrópu á TV3.