Enn á ný er útlit fyrir að Peter Jackson komi hvergi nálægt gerð myndarinnar um Hobbitann, sem New Line Cinema undirbýr nú. Bob Shaye, einn yfirmanna fyrirtækisins þvertekur fyrir það að starfa með leikstjóranum, vegna lagadeilu um laun Jacksons fyrir myndirnar þrjár um Hringadróttinssögu.
Shaye ber Jackson ekki vel söguna, segir hann nú þegar hafa þegið um 250 milljónir dala fyrir störf sín, en að hann vilji enn meira og hafi höfðað mál gegn New Line Cinema án þess að reyna nokkrar viðræður fyrst. Segir Shaye að Jackson muni aldrei gera kvikmynd fyrir New Line Cinema meðan hann starfi þar.
Jackson segist harma það að hann fái ekki að leikstýra myndinni, og að Shaye hafi tekið málið persónulega. Fregnir bárust af því seint á síðasta ári að Jackson fengi ekki að leikstýra myndinni vegna lagadeilunnar, en hann var ráðinn á ný eftir að hávær mótmæli heyrðust frá aðdáendum kvikmyndanna. Hobbitinn er eins konar formáli að Hringadróttinssögu, en þar er sögð saga Bilbó Bagga og því hvernig hann komst yfir hringinn máttuga.
New Line Cinema hefur þó aðeins tímabundið réttinn á því að framleiða myndina, og má því búast við því að framleiðslan hefjist fljótlega, hver sem leikstjórinn verður.