Leikarinn Johnny Depp hefur í hyggju að framleiða kvikmynd um hið dularfulla morð á njósnaranum Alexander Litvinenko, sem lést í London seint á síðasta ári. Segir blaðið Variety frá því í dag að kvikmyndafyrirtækið Warner Brothers hafi keypt kvikmyndaréttinn að óútkominni bók um málið og að framleiðslufyrirtæki Depp hafi fengið það verkefni að kvikmynda söguna.
Segir í frétt Variety að Depp hafi hrifist mjög af málinu og fylgst náið með þróun þess, og að líklegt sé að hann muni leika aðalhlutverkið í henni jafnframt því að framleiða myndina.
Litvinenko lést á sjúkrahúsi í London í nóvember eftir að hann veiktist vegna eitrunar, eftir að honum var byrlað geislavirka efnið pólon-210. Litvinenko hafði gagnrýnt rússnesk stjórnvöld harðlega og sakaði á banabeði Vladimír Pútín, forseta Rússlands, um að hafa fyrirskipað morðið á sér.