Borgaryfirvöld í Madríd hafa ákveðið að fyrirsætur sem teljast of magrar fái ekki að taka þátt í tískusýningum í borginni í næsta mánuði, en hliðstætt bann sem sett var í september olli hörðum deilum.
Borgaryfirvöld ætla þó ekki að hvika frá þessari stefnu sinni þar sem talið er að of magrar fyrirsætur geti sett ungum stúlkum slæmt fordæmi.
Einungis fyrirsætur sem hafa líkamsmassastuðul yfir 18 fá að taka þátt í Pasarela Cibeles-tískuhátíðinni, að því er einn skipuleggjenda hennar, Cuca Solano, tjáði spænsku fréttastofunni Europa Press.
Líkamsmassastuðull (BMI) 18 samsvarar 56 kg miðað við 1,75 m hæð.
Deilur um magrar fyrirsætur mögnuðust í september þegar yfirvöld í Madríd ákváðu að banna of mögrum fyrirsætum þátttöku í tískusýningum í borginni, og hörðuðu deilurnar síðan enn í nóvember þegar brasilísk fyrirsæta, Ana Carolina Reston, lést, en hún var haldin átröskun.
Í síðasta mánuði samþykktu yfirvöld og tískuhönnuðir í Mílanó viðmiðunarreglur sem kveða á um að fyrirsætur þurfi að vera að minnsta kosti 55 kg, miðað við 1,75 m hæð.