Tveir rithöfundar hafa áfrýjað dómi, sem féll í Lundúnum í fyrra í ritstuldarmáli vegna bókarinnar Da Vinci lykilsins. Höfundarnir halda því fram, að Dan Brown, höfundur Da Vinci lykilsins, hafi tekið hluta bókarinnar The Holy Blood and the Holy Grail traustataki og notað í Da Vinci lykilinn.
Lögmenn þeirra Michaels Baigents og Richards Leighs segja í áfrýjunarstefnunni, að dómur undirréttar hafi byggst á misskilningi: svo virðist sem dómarinn hafi ekki skilið lögin og kröfur höfundanna tveggja.
„Áfrýjendurnir vilja vernda eigin vinnu, dómgreind og hæfileika, sem nýtt voru við að skrifa HBHG (The Holy Blood and the Holy Grail)," segir í áfrýjunarstefnunni. „Málið snýst um að leyfa ekki öðrum að nota þessa hæfileika, dómgreind og vinnu í eigin þágu eins og hr. Brown gerði við ritun DVC (The Da Vinci Code)."
Peter Smith, dómari, úrskurðaði á síðasta ári, að Random House, útgefandi Browns, hefði ekki brotið gegn höfundarrétti höfundanna tveggja. Þeir voru dæmdir til að greiða 85% af málskostnaði Random House, sem talinn var vera 1,3 milljónir dala.
Yfir 40 milljónir eintaka hafa selst af Da Vinci lyklinum um allan heim frá því bókin kom út árið 2003. Kvikmynd var gerð eftir bókinni á síðasta ári. The Holy Blood and the Holy Grail kom út fyrir rúmum 20 árum, einnig á vegum Random House, og varð þá metsölubók. Salan glæddist aftur á síðasta ári í kjölfar réttarhaldanna.
Báðar bækurnar byggja á þeirri kenningu, að Jesús og María Magðalena hafi gifst og eignast barn og ætt þeirra lifi enn í dag.