Kínversk hjón á eftirlaunum hafa auglýst eftir uppkominni dóttur til að annast þau í ellinni. Hjónin Tian Zhendong og Ding Shuhui, sem eru fyrrum byggingarsérfræðingur og háskólaprófessor í Wuhan-héraði, segjast vera einmana og týnd í tilverunni eftir að einkasonur þeirra flutti til Kanada með konu sinni og að þau hafi því ákveðið að auglýsa eftir dóttur. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Hjónin munu hafa fengið um hundrað svör við auglýsingunni en þau hyggjast gefa tilvonandi dóttur sinni íbúð að þriggja ára reynslutíma loknum. „Við erum ekki að leita að þjónustustúlku heldur einhverjum sem mun hugsa um okkur það sem við eigum ólifað,” segir Tian. Þá segir hann harða samkeppni vera um stöðuna og að enn komi fimm konur til greina.
Sonur hjónanna flutti til Kanada fyrir sex árum og þvertekur hann fyrir að flytja aftur til Kína þrátt fyrir þrábeiðni foreldra sinna. Hann mun þó hringja í þau vikulega og hafa lagt til að þau flyttu til sín til Kanada en það geta þau ekki hugsað sér þótt þau hafi heimsótt hann nokkrum sinnum.