Kvikmyndaleikkonan Jennifer Aniston er nú sögð hafa gefið lögfræðingum sínum fyrirmæli um að hefja undirbúning að því að hún geti ættleitt barn. Aniston er sögð hafa íhugað ættleiðingu í nokkurn tíma og nú hafa tekið ákvörðun um að setja það á forgangslista sinn. Þá er hún sögð vilja ættleiða bandarískt barn og munu lögfræðingar hennar því hafa sett sig í samband við nokkrar ættleiðingarskrifstofur í Los Angeles.
„Jen leggur nú höfuðáherslu á ættleiðinguna og vill að hún eigi sér stað sem fyrst. Hún velti hugmyndinni fyrir sér á meðan hún var með Vince (Vaughn) en byrjaði að leita í desember eftir að þau slitu sambandi sínu,” segir ónefndur heimildarmaður breska tímaritsins Grazia. „Hún hefur leitað ráða hjá vinum sínum, m.a. Oprah Winfrey, sem ráðlagði henni að ættleiða barn frá Afríku, en hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að hún vilji ættleiða bandarískt barn.”
Brad Pitt, fyrrum eiginmaður Aniston, fer með forræði tveggja ættleiddra barna sambýliskonu sinnar Angelinu Jolie sem eru ættleidd frá Kambódíu og Eþíópíu auk þess sem hann á með henni dóttur á fyrsta ári. Þá hefur mikið verið fjallað um ættleiðingu söngkonunnar Madonnu á 16. mánaða dreng frá Malaví á síðasta ári en ættleiðing hans hefur verið harðlega gagnrýnd þar sem hún er sögð hafa brotið gegn landalögum í Malaví.