Brúðgumi sem reyndi að stela giftingarhring handa tilvonandi eiginkonu sinni var dæmdur í 12 vikna fangavist fyrir tiltækið. Simon Hopper gleypti hring sem hann var að skoða hjá gullsmið á Dorchester hótelinu í London með verðmiða upp á 243 þúsund krónur með.
Gullsmiðurinn hafði snúið baki í Hopper eitt augnablik og er hann spurði hvar hringurinn væri varð fátt um svör og lögreglan kölluð til. Platínum hringurinn fannst ekki við leit en þegar lögreglan setti málmleitartæki við maga Hoppers gaf hann frá sér hljóð.
Að sögn fréttavefjar Yahoo var Hopper settur í röntgenmyndatöku og þegar gripur sem líktist óneitanlega hringnum góða sást vel á myndum sagði hann að þetta væri trúlegast hringur af gosdós sem hann hafði gleypt.
Lögreglan ákvað að halda Hopper í fangageymslu uns móðir náttúra hefði gengið sinn gang. Gullsmiðurinn sagði í viðtali við Sky fréttastofuna að: „Hopper tókst að halda í sér í fjóra daga en síðan gerðist hið óumflýjanlega og ég fékk hringinn aftur.”
„Það er búið að hreinsa hann vel og rækilega margsinnis. Ég er ekki viss um að ég segi hugsanlegum kaupanda af fortíð hringsins,” bætti hann við.