Julie Winnefred Bertrand sem talin hefur verið elsta kona í heimi, 115 ára, andaðist í svefni á hjúkrunarheimili fyrir aldraða þar sem hún hafði dvalið síðast liðin 35 ár. Bertrand fæddist 16. september 1891 í bænum Coaticook í Quebec í Kanada.
Frændi hennar Andre Bertrand sagði í samtali við dagblaðið The Gazette í Montreal að hún hefði átt friðsamlegan dauðdaga. „Hún hætti bara að anda,” sagði Bertrand sem er 73 ára. „Og það er fín leið til að fara,” bætti hann við.
Bertrand varð elsta kona í heimi í síðasta mánuði eftir andlát Elizabeth Bolden frá Tennessee, en hún var fædd 15. ágúst 1890. Við það varð Bertrand samstundis mjög fræg, „það var alveg ótrúlegt,” sagði frændi hennar.
„Þessi litla kona seldi fatnað í vöruhúsi í Coaticook,” sagði hann.
Hún var elst sex barna Napoleons Bertrand sem var söðlasmiður og konu hans Juliu Mullins. Bertrand giftist aldrei sjálf. Hún átti kærasta og einn þeirra var Louis St. Laurent, ungur lögfræðingur frá Compton sem síðar varð forsætisráðherra.