Lesendur breska tímaritsins Hello hafa valið Mary, krónprinsessu Dana, glæsilegustu konu heims. Að sögn Ekstra Bladet fékk Mary 64.500 atkvæði í kjöri meðal lesenda blaðsins en bandaríska söngkonan Britney Spears, sem varð í öðru sæti, fékk 61 þúsund atkvæði.
Blaðið hefur eftir Jim Lyngvild, tískuritstjóra, að þetta komi sér ekkert á óvart enda sé Mary fyrirmynd kvenna um allan heim.
Í næstu sætum voru Cate Blanchett, Natalie Imbruglia, Rania Jórdaníudrottning, Catherine Zeta-Jones, Kate Winslet, Keira Knightley, Letizia krónprinsessa Spánar, Maxima Hollandsprinsessa, Magðalena Svíaprinsessa og Annette Bening.
Danir geta verið ánægðir með smekk lesenda Hello því danskættaði leikarinn Viggo Mortensen varð í þriðja sæti í kosningu um mest aðlaðandi karlmanninn. Breski leikarinn Sean Bean varð í 1. sæti og breski popparinn Robbie Williams varð annar.
Í næstu sætum voru Hugh Laurie, Jon Bon Jovi, Orlando Bloom, Jake Gyllenhaal, Johnny Depp, Colin Firth, Kiefer Sutherland, Clive Owen og Hugh Jackman, allt leikarar.
Í kosningu um mest aðlaðandi konuna fór bandaríska leikkonan Angelina Jolie með öruggan sigur af hólmi.
Í næstu sætum þar voru Jennier Morrison, Jennifer Aniston, Christina Aguilera, Nicole Richie, Rania Jórdaníudrottning, Emma Bunton, Nicole Kidman, Cate Blanchett og Salma Hayek.