Karl Bretaprins hefur ákveðið af aflýsa árlegri skíðaferð sinni til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda en prinsinn hefur verið gagnrýndur fyrir að fljúga um allan heim til að taka við viðurkenningum fyrir störf sín að umhverfisverndarmálum og stuðla með því að losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Í yfirlýsingu frá bresku hirðinni kemur fram að prinsinn hafi ákveðið fyrir nokkru að aflýsa skíðaferð sinni til Klosters í Sviss og leggja þannig sitt að mörkum í baráttunni við gróðurhúsalofttegundir en prinsinn mun í næstu viku fljúga til New York til að taka við Global Environmental Citizen Prize-verðlaununum úr hendi Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna.